Skoða efni
10. Mar 2022

Dagsferðir frá Bologna

Dagsferðir frá Bologna

Bologna er eitt best geymda leyndarmál Ítalíu. Þeir sem leggja leið sína hingað munu finna dásamlega heimsminjastaði, stórkostlegan ítalskan mat og borg sem er að mestu laus við gríðarlegan ferðamannastraum. Þeir sem hafa ferðast um Ítalíu vita að oft er margt um manninn á vinsælustu áfangastöðunum en það er ekki mikið vandamál í Bologna.

Það verður hins vegar að segjast eins og er að eitt af því allra besta við Bologna er staðsetning hennar og stuttar vegalengdir í alls kyns aðra spennandi áfangastaði. Þökk sé frábærum innviðum og skilvirkum samgöngum er hægt að skjótast í dagsferðir til að skoða heimili Lamborghini og Ferrari, gullfallega staði á heimsminjaskrá UNESCO, dásamlegar vínekrur, heimsfrægar borgir og margt, margt fleira.

Eftirfarandi er okkar listi yfir bestu dagsferðirnar frá Bologna:

Parma

Parma er heimsfrægur áfangastaður, fyrst og fremst vegna hinnar víðfrægu Parma-skinku sem er ómissandi hluti af veisluborðum alla sælkera. Í þokkabót er Reggio Emilia í næsta nágrenni en þaðan kemur sjálfur parmesanosturinn. Báða veitinga(áfanga)staði er hægt að heimsækja á einum degi með þægilegum lestarferðum sem taka rétt rúman klukkutíma.

Parma var menningarhöfuðborg Ítalíu árið 2020 og hlaut titilinn „Skapandi matarborg UNESCO“ árið 2015. Við mælum sérstaklega með rölti um bæinn til að skoða Piazza Duomo torgið frá miðöldum, Teatro Farnese leikhúsið og frægu átthyrndu skírnarkapelluna. Í Parma er líka að finna margar víngerðir, þ.m.t. Cantina il Poggio og Cantina del Borgo.

Parma, Italy
Modena, Italy

Modena

Modena er dásamlegur áfangastaður fyrir dagsferð frá Bologna. Ferðin tekur aðeins 32 mínútur með lest og bærinn er sneisafullur af áhugaverðum stöðum og afþreyingu. Má þar helst nefna Enzo Ferrari safnið, Lamborghini verksmiðjuna og marga ómótstæðilega veitingastaði. Ekki láta víngerðir svæðisins fram hjá ykkur fara, s.s. Fattoria Paradiso og Conti Dagostino en vinsælasta víngerð Modena er Acetaia malagoli Daniele.

Við mælum sérstaklega með því að fólk kíki líka á Maranello í næsta nágranni en þar má prufukeyra Ferrari. Þetta er einstök lífsreynsla og stutt að fara með leigubíl frá Modena. Að lokum er vert að nefna að Modena er heimili hefðbundna Balsamik-ediksins og hér taka menn edikið sitt alvarlega. Það er því algjör synd og eiginlega bannað að nota ekki ferðina til að kíkja í ediksverslanir og skoða ediksgerðirnar.

Spennandi?

Skoða flug til Bologna

Finna flug

Ferrara

Ferrara er aðeins 35 mínútur frá Bologna en staðurinn hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1995 fyrir magnaðar listir og menningu. Vinsæll áfangastaður hér er Este kastali sem á rætur sínar að rekja til 14. aldar. Hér má rölta á milli íburðarmikilla herbergja, hjóla meðfram kastalasíkinu og mynda magnaðan arkitektúrinn í bak og fyrir.  

Þá er ómissandi að kíkja á stórkostlega dómkirkju Ferrara frá árinu 1135. Kirkjan stendur í miðbænum, nærri Este kastala (Castello Estense) og ráðhúsinu (Palazzo Comunale).

Ferrara, Italy
San Marino, Italy

San Marino

Þeir sem hafa nægan tíma og setja lestarferðalag ekki fyrir sig ættu að gefa sér einn dag í San Marino. Lestarferðin tekur tæpa tvo tíma en er vel þess virði. Útsýnið úr lestinni er líka stórfenglegt.

 San Marino er agnarsmátt ríki í fjalllendi Norður-Ítalíu og þegar þangað er komið blasir við ævintýraheimur fullur af steini lögðum strætum, miðaldaveggjum og gotneskum arkitektúr. San Marino er þriðja smæsta ríki Evrópu, á eftir Vatíkaninu og Mónakó. Við mælum sérstaklega með San Marino víninu Sangiovese sem fæst í Consorzio Vini San Marino víngerðinni.

Rimini

Rimini er víðfrægur ítalskur strandbær. Hér eru magnaðar strendur og til að setja tóninn má nefna að héðan er goðsagnakenndi kvikmyndagerðamaðurinn Federico Fellini. Þetta er einn vinsælasti innlendi ferðamannastaður Ítala sem vilja komast úr mannmergðinni í fríinu sínu. Rimini er aðeins 40 mínútna lestarferð frá Bologna.

 Rimini er stappfullur af rómverskum rústum, söfnum, sögufrægum stöðum og ómótstæðilegum veitingastöðum. Ef Federico Fellini er þinn maður er tilvalið að gista á Grand Hotel Rimini, uppáhaldshótelinu hans.

Rimini Street, Italy
Milan, Italy

Mílanó

Mílanó er í hugum margra tískuhöfuðborg heimsins en lestarferð til Mílanó frá Bologna tekur aðeins 90 mínútur. Helsta kennileiti borgarinnar er óviðjafnanlega Duomo dómkirkjan en þangað er skyldumæting fyrir alla sem hafa minnsta áhuga á byggingalist. Þetta er líka heimabær eins frægasta listaverks mannkynssögunnar, Síðustu kvöldmáltíðarinnar eftir Leonardo da Vinci.

Mílanó er ein auðugasta borg Evrópu og hér má finna öll flottustu vörumerkin s.s. Armani, Dolce & Gabbana, Missoni og Prada. Mílanó er borgin sem bjó til þessi tískuvörumerki en hún er líka efnahagsleg miðja Ítalíu og veitingastaðirnir, hótelin og barirnir eru í takt við það.

Feneyjar

Það þarf ekki að kynna Feneyjar fyrir neinum. Allir og amma þeirra hafa að öllum líkindum séð kvikmynd sem hefur verið tekin upp hér, að öllu leyti eða hluta. Þessi gullfallega borg er aðeins klukkustund og 46 mínútur frá Bologna með lest.

Þegar hingað er komið er tilvalið að skoða basilíku heilags Markúsar, Rialto-brúna og fara í bátsferð um þessi fallegu síki. Hér er að sjálfsögðu nóg af ferðamönnum en sjarmi borgarinnar, gómsætur matur og ótæmandi listi af guðdómlegum byggingum er vel þess virði að deila með öðrum. Þetta er áfangastaður sem allir þurfa að heimsækja að minnsta kosti einu sinni.

Venice, Italy

Að lokum

Ítalía er einn vinsælasti áfangastaður heims enda sagan, maturinn, menningin og byggingalistin óviðjafnanleg. Bologna býður sín eigin stórkostlegu afbrigði af þessu öllu og í ofanálag er hún svo vel staðsett í landinu að fjöldi mögulegra dagsferða í þægilegri fjarlægð frá borginni er gríðarlegur.

Langar þig að ganga um lifandi leikmynd? Kíktu til Feneyja. Viltu sjá nýjustu hátískuna? Farðu til Mílanó. Hvað með að skoða uppruna dýrustu og fínustu sportbíla heims? Taktu þá lestina beint til Modena. 

Það er sama á hvernig málið er litið, það besta er allt í boði frá Bologna.

Afþreying í Bologna