Skoða efni

Mallorca

Ódýrt flug til Mallorca

Makindi og munaður

Mallorca ætti að vera flestum Íslendingum kunnug enda vinsæll áfangastaður útskriftarnema á leið í djammferð á síðustu öld. Það er óneitanlega frábært að skemmta sér í Palma, höfuðborg Mallorca, en þessi eyja er fjölbreyttari og stærri en lítið safn af næturklúbbum og kokkteilbörum borgarinnar gefur til kynna.

Mallorca er stærsta eyja eyjaklasans Baleareyja og sú vinsælasta af þessum fjölmörgu ævintýraeyjum. Umhverfi Mallorca, náttúran og hafið er eins og úr öðrum heimi með skærbláan sjó, gylltar strendur, litríkan gróður og sjarmerandi þorp. Þetta er hlý og hugguleg eyja en þessi fyrsta flokks veðrátta og stutt vegalengd frá helstu borgum Evrópu gerir það að verkum að ferðamannaiðnaðurinn blómstrar hér í takt við gróðurinn. Í raun er svo gott að vera til á Mallorca að margir eiga ekki afturkvæmt í súld og kalda vetur heimalandsins. Það var að minnsta kosti tilfellið þegar listmálarinn Joan Miró ákvað að setjast hér að með fjölskyldunni. Í Palma er einmitt að finna safn listamannsins sem er ómissandi viðkomustaður allra sem ferðast til Mallorca og nauðsynlegt hlé frá ofgnótt af sól og strönd.

Gróðursæld og blómstrandi sköpunargáfa

Þeir sem eru í vandræðum með að klára fallegustu prelúdíur allra tíma geta drifið franska skáldakærustu með sér í frí til Mallorca. Það virkaði allavega fyrir Chopin og George Sand. Mallorca hefur líka verið mörgu skáldinu innblástur og það er tilvalið að taka Robert Graves, Agöthu Christie eða Borges með sér í kilju á sundlaugarbakkann því öll skrifuðu þau sögur sem gerast á Mallorca eftir að hafa dvalið á eyjunni. Mallorca hefur nefnilega verið paradís sköpunargáfunnar í hugum Evrópubúa og menningarelítunnar öldum saman.

Blómstrandi ferðamannaiðnaður Mallorca tryggir að mikið framboð er af fjölbreyttri þjónustu og þar ber helst að nefna stórbrotna veitingastaðaflóruna. Michelin-veitingastaðir og dýrlegur götumatur keppast við að góma fólk í hverja einustu máltíð og gestir og gangandi græða sannarlega á samkeppninni. Eins og sönnum eyjaskeggjum sæmir skara Mallorca-búar fram úr í sjávarréttum og fullkomin máltíð á Mallorca er nýveiddur fiskur á veitingastað við sjóinn.

Flestir heimsækja auðvitað Mallorca til að liggja á ströndinni, sóla sig, borða góðan mat og drekka kalda kokkteila. En hér skildi enginn láta náttúrufegurð eyjunnar fram hjá sér fara. Það á við um grónar hlíðar, klettabeltin, víkurnar og sjálft hafið. Framboð af afþreyingu og útivist er svo gott sem ótæmandi en við mælum sérstaklega með hjólaferðum á landi og snorkli á sjó.

Leyfðu þér makindi og munað í sumar og skrifaðu þína eigin sögu í sandinn á Mallorca.

Vinsæl afþreying í Mallorca

Skoðaðu La Lonja, arabísku böðin og fjölmarga fjársjóði sem þessi heimsþekkti áfangastaður er þekktur fyrir. Leiðsögnin veitir fræðandi og skemmtilega innsýn inn í allt sem viðkemur dómkirkju Palma.

Áskorunin (The Challenge) er ævintýraleg afþreying á norðurhluta Mallorca sem hæfir öllum aldurshópum. Fimm afþreyingar í einni ferð tryggir frábæra skemmtun á þessum fallega hluta eyjunnar. Finnur þú falda fjársjóðinn? Taktu áskoruninni!

Upplifðu norðurströnd Mallorca í afslappaðri útsýnissiglingu að Formentor-strönd, einni fallegustu og vinsælustu strönd Mallorca. Sjáðu magnað útsýnið yfir strandlengju Mallorca og nágrannans Menorca.