Skoða efni

Frankfurt

Ódýrt flug til Frankfurt með PLAY

Skoðaðu Frankfurt, borg fjármála, viðskipta og góðrar skemmtunar

Við fyrstu sýn mætti halda að Frankfurt snúist bara um viðskipti og alvarlega fundi enda blasir við fullt af fólki í vinnuhugleiðingum á hraðferð í Bankenviertel eða fjármálahverfinu. En um leið og stigið er út fyrir skýjakljúfahluta borgarinnar kemur í ljós rík saga, menning og náttúrufegurð í þessari sjarmerandi borg. Meðal ógleymanlegra augnablika í Frankfurt má nefna göngutúr eftir breiðstrætum borgarinnar með kanilútgáfuna af Ebbelwei, í hönd, eftirmiðdagur innan um 700 ára listasögu í Städel-safninu, lautarferð í lystigarðinum Palmengarten eða að bera augum veiðimannaeinvígið á Mainfest-hátíðinni.

Tveggja turna tal: ómissandi sögulegir stólpar Frankfurt

Fátt býður betri sýn yfir köflótta sögu Frankfurt en 15. aldar turninn Eschenheimer Turm þar sem hann stendur innan um skýjakljúfana í miðborginni. Þessi 47 metra háa bygging var upprunalegi hluti af gríðarlega stórum varnarvegg um borgina en sá var síðar rifinn. Franski greifinn Thomas Hédouville bjargaði turninum og í dag er þetta eitt helsta kennileiti Frankfurt.

Tímaferðalagið um miðaldir heldur áfram við Römerberg, sögufrægu torgi borgarinnar en það er umkringt klassískum timburhúsum sem voru endurgerð í upprunalegri mynd eftir stríð. Römer, núverandi ráðhús borgarinnar, er sögulegur krýningarstaður þýsku keisaranna og ómissandi viðkomustaður allra ferðalanga. Þá er ekki hægt að sleppa því að ganga fram hjá gotnesku dómkirkju borgarinnar.

Næst liggur leiðin að Main-turninum í Bankenviertel, hverfið sem tryggir Frankfurt tvö mjög viðeigandi gælunöfn: „Bankfurt“ og „Mainhattan“. Takið lyftuna upp á 54. hæð og stigann upp á efri útsýnispall til að bera magnað útsýnið yfir borgina augum. Þessi 200 metra hái skýjakljúfur er sá eini sem er opinn almenningin af þeim 450 háhýsum sem hýsa gríðarlega banka- og viðskiptastarfsemi Frankfurt, þ.m.t. Seðlabanka Evrópu.

Menningarvitar, Museumsufer, Main-hátíðin og meira

Listaspírurnar ættu að pakka bestu gönguskónum sínum og kíkja niður á árbakka Main í Frankfurt því þar er að finna 39 söfn og gallerí á svæði sem kallast „Museumsufer“ eða „Safnabakkinn“. Meðal ómissandi viðkomustaða hér má nefna Museum Angewandte Kunst eða hönnunarsafnið þar sem er að finna safneign upp á 60.000 muni af evrópskri hönnun og tísku, Gyðingasafnið sem sýnir 800 ára sögu gyðinga, listir og fjölskyldusögur og Goethe-húsið, fæðingarstað þýska skáldarisans Johann Wolfgang von Goethe.

 

Þeir sem hafa bara tíma til að heimsækja eitt safn ættu að velja Städel-safnið. Hér má njóta þess að ferðast um listasögu Evrópu frá 14. öld til samtímans í fylgd með Dürer, Botticelli, Rembrandt, Vermeer, Monet, Picasso og svona mætti lengi telja. Þeir sem vilja meira hressandi stemningu með menningarupplifuninni sinni ættu að tímasetja ferðalagið í kringum einhverja af fjölmörgum hátíðum sem haldnar eru árlega í Frankfurt, s.s. jasshátíðina Jazz zum Dritten, Mainfest, eða víðfræga jólamarkaði Frankfurt til að komast í alvöru hátíðarskap og bragða á bestu jólakræsingum Þýskalands.

 

Taktu hlé frá menningarrápinu og hvíldu þig undir mangó-, banana-, kakó- og kókostrjám í pálmagarðinum Palmengarten sem var stofnaður árið 1869. Þetta safn framandi plöntutegunda er í dag orðið að grænni höfn fyrir heimamenn og túrista í miðri borginni. Fyrir utan þessi 14 ævintýralegu gróðurhús og 13.000 plöntutegundir á rúmum 20 hekturum má finna ríkulega dagskrá af útitónleikum og hátíðarhöldum í þessum lystigarði yfir sumartímann.

Þrír gómsætir réttir í Frankfurt (fyrir utan pylsurnar)

Byrjum á því allra mikilvægasta en það eru að sjálfsögðu pylsurnar. Þær eru jafnfjölbreyttar og þær eru frábærar og þeirra má njóta á dúkalögðu veitingahúsi eða sem götumat á röltinu. Við mælum svo sérstaklega með Handkäse, sérstökum ostarétti frá Hessen sem er útbúinn úr súrmjólk, en svo má alltaf ganga skrefinu lengra og panta Handkäse mit Musik, en þá er osturinn marineraður með lauk í olíu og ediki með salt og pipar. Namm!

 

Ekki missa af grænu sósunni eða Grüne Soße, mintublandaðri jógúrtsósu með sýrðum rjóma og sjö mismunandi kryddjurtategundum en hún er fullkomin viðbót við svínasnitsel. Það borgar sig að læra bara strax að útbúa hana heima því hún er ógleymanleg og svínasnitsel verður aldrei eins án hennar framvegis. Þessu má síðan öllu skola niður með alvöru Ebbelwei en það er eplavín svæðisins sem er einnig oft kallað Schoppe eða Stöffche.