Skoða efni
A castle on a hill with the Wales flag on top and blue sky and some cloud in the background.

Cardiff

Ódýrt flug til Cardiff

Vinalega landið sem er Wales

Hvernig hljómar lifandi heimsborg full af spennandi afþreyingu sem er samt vinalega lítil og allt í göngufæri? Sú lýsing passar fullkomlega við Cardiff, höfuðborg Wales þar sem íbúafjöldi er á pari við íslensku þjóðina. Fyrir þá sem þurfa upprifjun í landafræði er Wales land sem liggur á vesturhluta Stóra-Bretlands og tilheyrir Breska konungsríkinu. Íbúafjöldi í Wales er um þrjár milljónir, gjaldmiðillinn er breskt pund og opinberg tungumál þjóðarinnar er velska en engar áhyggjur, það tala allir ensku í Wales. Margir telja Wales við bresku konungsfjölskylduna og réttilega því karlkyns erfingi krúnunnar er samkvæmt hefðinni ávallt titlaður prinsinn af Wales. En Wales er ekki bara einhver óáþreifanlegur titill því þessi þjóð býr yfir ríkulegri arfleifð, gamalli sögu og spennandi menningu.

Krúttlega heimsborgin Cardiff

Cardiff er virkilega vinaleg borg sem er þægilegt að skoða á fæti þótt almenningssamgöngur séu að sjálfsögðu í boði. Borgin er ekki stór en þar er að finna fjölda spennandi staða sem við mælum sérstaklega með. Ber þar helst að nefna einn vinsælasta áfangastað Wales en það er sjálfur kastalinn í Cardiff. Þessi miðaldakastali á rætur að rekja til 11. aldar en hann var byggður á stað þar sem áður stóð gamalt rómverskt virki frá 3. öld og má enn sjá rústir þess á svæðinu. Kastalinn sjálfur er ævintýralegur á að líta og það kostar ekkert að rölta um svæðið og dást að mannvirkjunum. Við mælum þó með því að fólk borgi sig inn og fái jafnvel leiðsögn um ótrúlega fallega skreytta innviðina, neðanjarðargöngin, sprengjubyrgi úr seinni heimsstyrjöldinni og virkisturninn þaðan sem má dást að útsýni yfir borgina.

Almenningsgarðurinn Bute Park liggur við kastalann og þar er tilvalið að fara í lautarferð eftir kastalakönnunina. Instagrammið ætti að slá í gegn á þeim degi en það má alltaf gera betur og halda aðeins lengra yfir í Sophia Gardens þar sem finna má alþjóðlegan krikketvöll. Ekki vanmeta mátt bresku þjóðaríþróttanna eða keppnisskapið í heimamönnum og ef tækifæri gefst er fyrirtaks skemmtun að skella sér á einn krikketleik í óviðjafnanlegri stemningu. Ef krikket heillar ekki má alltaf kíkja á ruðning eða rugby eins og íþróttin kallast á ensku og þá er líklega ekki til betri staður Millennium Stadium, heimkynni velska landsliðsins og stærsti rugby-leikvangur í Wales. Hér tekur fólk íþróttirnar sínar alvarlega og þar er fótbolti að sjálfsögðu engin undantekning. Nýverið færðist fjör í velska boltann þegar Hollywood-stjörnurnar Ryan Reynolds og Rob McElhenney keyptu liðið Wrexham og úr varð vinsæl heimildaþáttaröð um liðið og deildina.

Þegar búið er að fylla á alla mögulega íþróttatanka mælum við með menningarferð í söfnin og ber þar helst að nefna Musuem of Cardiff til að fræðast um fortíð og framtíð borgarinnar ásamt  National Museum of Wales sem veitir góða yfirsýn yfir sögu þjóðarinnar og fallega listmuni. Það sakar ekki að aðgangur í bæði söfnin er ókeypis.

Ekki missa af Cardiff Bay sem er litríkt og lifandi hafnarsvæði borgarinnar þar sem finna má skemmtilegar verslanir, tónleika, skemmtanir og frábært úrval veitingastaða. Þetta er sérstaklega verðugur göngutúr úr miðbænum með fallegt útsýni út á flóann.

En jafnvel þótt öllum helstu ferðamannastöðunum sé sleppt er vel hægt að njóta lífsins í skrítnum og skemmtilegum búðum miðsvæðis, kíkja á krána og spjalla við vingjarnlega heimamenn.

Þeir sem dvelja í Cardiff ættu að skoða dagsferðir úr borginni sem eru fjölmargar til að upplifa eitthvað af rómaðri náttúrufegurð Wales. Þá eru fjölmargir vinsælir ferðamannastaðir í nágrenninu sem eru vel ferðarinnar virði s.s. St Fagans safnið, Caerphilly kastali, Pembroke kastali (já, það er enginn skortur á köstulum í Wales) og Bodnant garðurinn.

Wales (og Cardiff er þar engin undantekning) er spennandi og hagstæður áfangastaður sem er fullur af skemmtilegri menningu, sögulegum minjum, skrítnum sérkennum og vinalegu fólki.