Skoða efni
8. May 2023

Farþegafjöldi í apríl þrefaldaðist á milli ára og sætanýting var 80,8%

Farþegum PLAY fjölgaði  mikið í apríl og voru 102.499 talsins, samanborið við 86.661 farþega í mars. Sætanýtingin nam 80,8 prósentum. Hér er um að ræða verulegan vöxt frá sama tíma í fyrra, þegar farþegar voru 36.669 og sætanýtingin 72,4%. Farþegafjöldinn sem næst þrefaldaðist á milli ára.

Flugferðir félagsins til Barcelona og London skiluðu með eindæmum sterkri sætanýtingu í apríl upp á meira en 90%. Á sama tíma reyndust ferðirnar til annarra sólaráfangastaða félagsins mjög vel að venju.

Í apríl hélt ferðamönnum á leið til landsins áfram að fjölga, sem er til marks um aukna vörumerkjavitund um félagið erlendis, aukið traust og öflugt sölustarf enda er félagið staðráðið í að auka hlutdeild sína á þessum markaði. Af öllum farþegum PLAY í apríl voru 33,5% að ferðast frá Íslandi, 31% voru á leið til Íslands og 35,3% voru tengifarþegar.

 Apríl var mjög góður sölumánuður sem er beint framhald á sterkri söluþróun fyrstu þriggja mánaða ársins, sem voru metsölumánuðir. Á sama tíma heldur meðalverð á hvern farþega áfram að hækka, sem og hliðartekjurnar að aukast. Bókanir fram á við haldast sterkar og þar má merkja umtalsvert sterkari bókunarstöðu miðað við sama tíma í fyrra.

Stundvísi PLAY var áfram með ágætum í apríl og nam 85,3 prósentum. Þetta er vitnisburður um góða frammistöðu áhafna og starfsmanna  á flugrekstrarsviði, sem kappkosta í hvívetna við að veita ávallt trausta og örugga þjónustu. Stundvísi PLAY hefur verið umtalsvert betri en hjá helstu samkeppnisaðilum á síðustu mánuðum, sem tryggir stöðu félagsins sem eins áreiðanlegasta flugfélags á mörkuðum þess.

Flugáætlun til Aþenu framlengd vegna eftirspurnar og flug allt árið til Lissabon

Áfangastaðir félagsins verða 38 í Evrópu og í Norður-Ameríku á árinu og félagið verður með tíu flugvélar  í rekstri . Hluti af langtímauppbyggingu leiðakerfisins er að auka framboð enn frekar og kynna inn nýjungar en veturinn 2023-24 mun PLAY meðal annars bjóða upp á:

●       Síðdegisbrottfarir til Kaupmannahafnar og London

●       Flug allt árið um kring til Lissabon

●       Framlenging á flugáætlun félagsins til Aþenu vegna mikillar eftirspurnar

●       Auka tíðni flugferða til Alicante og Tenerife

●       Flug til nýju áfangastaðanna Fuerteventure and Verona

 

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Apríl var mjög góður mánuður í flugrekstrinum, farþegarnir fleiri en hundrað þúsund og stundvísin upp á 85,3%. Vorið er krefjandi tími fyrir flugfélag í örum vexti. Við erum að bæta verulega í starfsemina fyrir sumarið, taka fjórar nýjar vélar í gagnið og ræsa fjölda nýrra áfangastaða í leiðakerfinu. Nýir áfangastaðir hafa í för með sér nokkurt aukaálag til að byrja með enda er oft ójafnvægi fyrstu vikurnar; fleiri farþegar fara út en fljúga heim. Í ljósi þessara áskorana erum við ánægð með 80,8% sætanýtingu í apríl. Hún sýnir að áfangastaðir okkar sem fyrir voru eru að skila mjög fullnægjandi árangri, eins og hinir nýju munu gera þegar aðlögunarfasi fyrstu viknanna er liðinn. Tekjurnar okkar eru að aukast og sérstaklega hliðartekjurnar, sem hafa aukist um 25% á hvern farþega á síðustu mánuðum. Bókunarflæðið er mjög sterkt og við fórum út úr fyrsta ársfjórðungi með góða lausafjárstöðu, sem er bæði umtalsvert afrek fyrir flugfélag í okkar stöðu og til marks um góða stöðu félagsins á mörkuðum. Við erum einstaklega ánægð með þennan árangur og hann fyllir okkur eldmóð fyrir sumarið. Teymið hjá PLAY er samhent og á fullum snúningi þessa dagana við að undirbúa þennan mikilvægasta tíma ársins, sem ég er sannfærður um að muni skila niðurstöðu sem við getum öll verið stolt af.“

 

Operational Statistics - April 2023Hlekkur opnast í nýjum flipa