Skoða efni
Ódýr flug til Þrándheims

Þrándheimur

Ódýr flug til Þrándheims

Velkomin til höfuðborgar Íslands – á 13. öld. Þrándheimur er í dag þriðja stærsta borg Noregs en var lengi vel höfuðstaður landsins og kallaðist þá Niðarós. Einn frægasti og merkilegasti íbúi Þrándheims er hvorki meira né minna en sjálfur Leifur Eiríksson. Þessi tæplega 200.000 manna borg er stundum kölluð höfuðborg norskrar þekkingar. Hér þrífast tæknifyrirtæki og framþróun enda er hér að finna stærsta háskóla Noregs, vísinda- og tækniháskólann NTNU.

Hér þrífst fleiri en tækni því matarmenning er hér í hávegum höfð. Matargöt hvaðanæva að úr heiminum geta notið lífsins í þessari borg þar sem er að finna þrjá Michelin-stjörnu-veitingastaði og fjöldann allan af áhugaverðum veitingastöðum, götumat og mathöllum enda hráefnið á þessum slóðum ekkert annað en fyrsta flokks.

Íbúar Þrándheims eru framarlega á merinni í samgöngum því þetta er ótvíræð hjólaborg og allt gert til að búa hjólreiðafólki í haginn. Hér er meira að segja að finna sérstaka reiðhjólalyftu sem kemur lúnum reiðhjólamönnum upp bröttustu brekku borgarinnar áreynslulaust. 

En Þrándheimur skarar ekki bara fram úr í innihaldi, hér skiptir útlitið líka máli. Gamli bær borgarinnar, Bakklandet, er undurfagur og sérstakur þar sem 18. aldar bryggjuhús raða sér við bakka árinnar Nið sem liðast í gegnum borgina. Hér er unun að rölta um gömul steinlögð stræti og kíkja í fallegar hönnunarverslanir. Og það er ekki allt því Þrándheimur stendur við Þrándheimsfjörð, einn af stærstu og mögulega fegurstu fjörðum Noregs. Stórbrotin náttúran ræður hér ríkjum og lífríki fjarðarins gefur útlitinu ekkert eftir. Hafðu augun opin því þú gætir séð risasmokkfiska og háhyrninga gægjast upp úr spegilsléttum firðinum fyrir framan þig.

Farðu aftur til upprunans, heimsæktu gamla höfuðstaðinn og njóttu lífsins í fegurðinni í Þrándheimi.