Skoða efni
Ódýr flug til Stavanger

Stavanger

Ódýr flug til Stavanger

Á óformlegum fundi markaðsdeildar PLAY var borgin Stavanger kosin fegurðar- og dramadrottning ársins. Þessi forríki olíuhöfuðstaður Noregs er staður fjölmenningar og velmegunar og hér er virkilega gott að búa. Atvinnuleysi er í algjöru lágmarki og íbúar eru meðal þeirra hamingjusömustu í heimi. En það er ekki helsta ástæða þess að fólk ætti að heimsækja Stavanger eða Stafangur eins og hún er stundum kölluð á íslensku.

Fegurðardrottningin Stavanger er ein elsta borg Noregs. Hún á rætur sínar að rekja aftur til 12. aldar og þessi virðulegi aldur er áþreifanlegur. Dómkirkja borgarinnar er upprunalega frá árinu 1125 sem er einmitt árið sem er miðað við að Stavanger sé stofnuð og nýlega endurgerð dómkirkjan er ómissandi viðkomustaður allra sem heimsækja borgina. Gamli miðbærinn (Gamle Stavanger) er verndað sögulegt svæði sem virkar á gesti og gangandi eins og gullfalleg leikmynd eða safn. Þessi þröngu steinlögðu stræti, gömlu ljósastaurarnir og litrík uppgerð húsin skapa dásamlega og einstaka stemningu í bland við gullfallegar verslanirnar og sjarmerandi kaffihúsin.

En hvað er svona dramatískt við Stavanger? Umhverfið. Stígðu út fyrir borgina og þú skilur hvað við er átt. Borgin situr í miðju landslagi sem er svo dramatískt að það virðist á köflum hafa verið teiknað fyrir metnaðarfullan tölvuleik. Jökulfjörðurinn Lysefjord er steinsnar frá borginni og sérstaklega vinsælt umhverfi að skoða því hér gnæfa þverhnípt björg yfir firðinum í bland við hella og litlar ævintýralegar eyjur. Lysefjord státar líka af tveimur heimsfrægum krúnudjásnum: Preikestolen (Predikunarstóllinn) og Kjeragbolten. Ef þú hefur einhvern tíma opnað Instagram eða horft á Mission: Impossible – Fallout, hefur þú séð báða þessa mögnuðu og óraunverulegu staði.

Við ætlum ekkert að fullyrða að Stavanger sé algjör paradís, en eitt hverfi borgarinnar heitir samt Paradis. Bara svo það sé á hreinu.