Skoða efni
1. Feb 2022

Fjögur frábær skíðasvæði í nágrenni Salzburg

Salzburg

Salzburg er gullfalleg borg, full af sögu, menningu og náttúrufegurð. En Salzburg er líka fullkominn áfangastaður fyrir skíða- og brettafólk því flugvöllurinn er staðsettur nálægt einhverjum bestu skíðasvæðum Austurríkis. Hér er stutt úttekt á fjórum frábærum skíðasvæðum sem öll má finna í innan við 90 mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum í Salzburg.

Zell am See

Skíðasvæðið í kringum bæinn Zell am See kemur sterklega til greina sem eitt fallegasta skíðasvæði Austurríkis. Bærinn stendur við frosið stöðuvatn og í bakgrunni breiðir Hohe Tauern-þjóðgarðurinn úr sér sem gerir útsýnið og umhverfi svæðisins einstakt. Hið stórglæsilega Grand Hotel sem stendur við vatnið og snotur gamli miðbærinn gera dvölina að skíðadegi loknum ekki síður eftirminnilega. Í Zell am See má finna 138 km af brekkum við allra hæfi en svæðið tilheyrir hinu svokallaða Ski Alpin Card sem gefur korthöfum aðgang að yfir 120 lyftum og rúmlega 400 km af brekkum, þ.m.t. aðgang að Kitzsteinhorn-jöklinum.

Zell am See
Kitzbuhel Skiing

Kitzbühel

Kitzbühel er í miklum metum hjá íslensku skíðafólki enda bærinn talinn einn fallegasti skíðabær Evrópu! Steinlagðar göturnar og hús í miðaldastíl setja svip sinn á bæinn fyrir þá sem vilja gera eitthvað fleira en skíða frá morgni til kvölds. Skíðasvæðið sjálft er þó enginn eftirbátur bæjarins en þar má finna 234 km af brekkum bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Skíðasvæðið er víðfeðmt sem býður upp á mikla fjölbreytni í brekkum og enginn dagur þarf að vera eins. Á svæðinu eru um 60 veitingastaðir í fjallinu sem státa af frábæru útsýni og krúttlegum kofum í tírólskum stíl.

Spennandi?

Skoða flug til Salzburg

Finna flug

Kaprun

Skíðasvæðið í Kaprun er næst Kitzsteinhorn-jöklinum sem gerir það að einu áreiðanlegasta skíðasvæði í Austurríki hvað varðar almennileg snjóalög. Skíðasvæðið nær frá 750 metrum upp í um 3.000 metra hæð á toppi jökulsins og skartar svæðið af 138 km af brekkum. Kitzsteinhorn er jafnframt gríðarlega vinsælt fyrir þá sem vilja skíða utan vegar og prófa eitthvað annað en hefðbundnar brekkur. Þetta er sannkölluð paradís fyrir kröfuharða skíðafíkla. Í Kaprun má finna úrval af frábærum gistikostum, bæði íbúðir og hótel þar sem hægt er að skella sér í sund, gufu og slökun í lok dags.

Kaprun Skiing
Bad Gastein Ski Lyft

Bad Gastein

Bad Gastein er ekki hin hefðbundni austurríski skíðabær heldur er hann frekar þekktur fyrir heilsulindir á heimsmælikvarða. Skíðasvæðið sjálft er lítið í samanburði við önnur svæði en gestafjöldinn í samræmi við það og oft hreinlega hægt að eiga brekkurnar út af fyrir sig. Þeir sem vilja frekar njóta en þjóta eru á heimavelli í Bad Gastein enda úrval af hótelum í boði á svæðinu sem státa af frábærum heilsulindum. Fjölskyldufólk ætti að prófa Familienhotel Sonngastein en þar má líklega finna stærsta leiksvæði sem nokkurt skíðahótel býður upp á!

Spennandi?

Skoða flug til Salzburg

Finna flug
Warsaw
NÆST Á DAGSKRÁ

Það allra helsta í Varsjá: 8 ómissandi áfangastaðir


Afþreying í Salzburg