Skoða efni
27. Jun 2022

Það allra besta af Bologna

Róm, Flórens og Feneyjar – allir þekkja þrjár frægustu borgir Ítalíu. En mun færri geta staðsett Bologna á landakorti enda er þessi stórfenglega borg eitt best geymda leyndarmál Ítalíu.

Þessi miðlæga ítalska borg sem liggur á milli Flórens og Feneyja í norðri blandar sama því besta af hinum þremur stórborgunum á sinn eigin einstaka hátt. Hingað koma matgæðingar, sagnfræðingar, forvitnir ferðalangar og námsmenn og njóta lífsins hver á sinn hátt. Opnaðu augun og skilningarvitin og njóttu þess allra besta sem Bologna hefur upp á að bjóða.

Bologna Massive Hallway Greek
Bologna Piazza Maggiore Square

Piazza Maggiore torgið í Bologna

Fyrsta stopp fyrir þá sem eru að kynnast Bologna í fyrsta sinn er risastórt Piazza Maggiore torgið. Hér má sitja með heimamönnum og sötra á fyrsta espresso-bolla morgunsins á einu af fjölmörgum útikaffihúsum við torgið. Á torginu iðar allt af lífi og á vissan hátt er þetta hjarta borgarinnar. Allt í kring eru byggingar frá miðöldum: Basilica di San Petronio dómkirkjan, ráðhúsið, Biblioteca Salaborsa og hinn fallegi Neptúnusar-gosbrunnur. Byggingin á dómkirkjunni hófst árið 1393 og síðastliðin 200 ár hefur hún fengið stöðugt viðhald. Ekki missa af Sacrario dei Partigiani, minnisvarða Bologna um andspyrnuhreyfingu seinni heimsstyrjaldarinnar. Hér voru mörg hundruð Bologna-búar myrtir af nasistum í stríðinu.

Upp, upp mín sál í Bologna

Þegar búið er að sötra espresso-bollann á torginu er tími til kominn að byrja að ráfa um borgina. Þá er góð hugmynd að stefna beint á Asinelli-turninn. Þetta er einn af tveimur hallandi turnum úr borgarmynd Bologna á miðöldum. Garisenda-turninn er lægri en Asinelli á að vera hæsti hallandi miðaldaturn í heimi. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að tækla þessi 498 þrep upp í 97,2 metra hæð til að njóta útsýnisins yfir borgina.

Þegar upp er komið er gaman að hugleiða þá staðreynd að á 12. og 13. öld voru 125 svona turnar víðsvegar um Bologna sem ríkar fjölskyldur byggðu til að auglýsa völd sín og áhrif með því að byggja stærri og flottari varðturna um landareignir sínar. Einn svona turn er tilkomumikið afrek í ljósi tæknilegra úrræða fyrir um 800 árum, hvað þá rúmlega 100 turnar. Turnarnir hafa flestir hrunið eða verið rifnir eftir 13. öld og sumir voru endurnýttir sem íbúðarhúsnæði eða fangelsi.

Bologna Asinelli Tower Square
Bologna Food Options

Bologna fyrir matgæðinga

Þegar komið er aftur niður á jafnsléttu er upplagt að rölta hægt og rólega um Quadrilatero, miðaldamarkað þar sem kviknar á öllum bragðlaukunum innan um endalaust úrval af góðgæti frá svæðinu. Þessi þröngu, steini lögðu stræti bjóða upp á klassísk ítölsk hnossgæti á borð við parmigiano, tortellini, tagliatelle, ragu og Lambrusco. Ekki láta mortadella fram hjá þér fara því þessi fræga ítalska pylsa úr fínu svínahakki var fundin upp á þessum slóðum.

Spennandi?

Skoða flug til Bologna

Finna flug

Síkin í Bologna

Ferðamann hugsa sjálfsagt fyrst um Feneyjar þegar talað er um síkin á Ítalíu. En færri vita af síkjakerfinu í Bologna. Á meðan síkin í Feneyjum eru helsta kennileiti borgarinnar var síkjunum í Bologna flestum lokað með götum og bílastæðum á 20. öld þegar ekki var lengur þörf á að flytja fólk og vörur um vatnaleiðirnar.

Einn leynistaður af sögulegum síkjum Bologna lifir þó enn. Fyrir aftan byggingar sem fela hana rækilega má finna fallega leikmynd í gegnum litla gluggann á Via Piella. Þaðan má sjá þessa einstöku gömlu vatnaleið, Canale delle Moline.

Bologna Window to Canal
Bologna Basilisk Street

Basilíkan í Bologna

Það er ekki hægt að heimsækja Bologna án þess að kynnast Basilíku Santo Stefano persónulega. Þetta er einstakur trúarlegur staður. Trúarlegar byggingarnar hér tengjast saman og ná yfir alla sögu borgarinnar, frá Rómaveldi til forna til Lombard og rómanska stílsins. Byggingin hófst á 5. öld þegar San Petranio, biskupinn í Bologna, áformaði að byggja kirkju Santo Sepolcro en hann vildi ganga enn lengra og gera byggingu úr sjö kirkjum. Talan sjö átti að tákna heilaga staði úr píslarsögu Krists.

Enn í dag er hægt að heimsækja fjórar af þessum sjö kirkjum: Chiesa del Crocifisso (Kirkju krossfestingar), Kirkju grafhvelfingarinnar, Kirkju Santi Vitale og Agricola og Martirium kirkjuna. Byggingunum fylgja síðan fleiri áhugaverðir áfangastaðir, s.s. Pilato húsagarðurinn sem táknar staðinn þar sem Jesús var dæmdur ásamt einstökum grafsteinum kirkjugarðsins sem áhugavert er að virða fyrir sér.

Námslífið

Það er ekkert skrítið að Bologna laði til sín unga og upprennandi námsmenn. Hér er nefnilega að finna elsta háskóla Vesturheims. Á daginn er hægt að líta við í krufningastofunni í Archiginnasio-byggingu háskólans. Á 15. öld horfðu læknanemar á lækna kryfja lík hér en stofan er talin sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Nærri Bologna-háskóla er frábært hverfi sem kallast Ebracio. Þetta er í raun fátækrahverfi gyðinga frá 16. öld og göngutúr um þetta völundarhús af húsasundum, yfirbyggðum brúm og þröngum strætum er eins og að skjótast í tímavél aftur til 1556 þegar ítalska kirkjuríkið hamlaði för gyðinga umfram þetta litla svæði. Það var stöðugt fylgst með þeim úr vöktuðum hliðum inn í hverfið sem voru opnuð við sólarupprás og læst við sólsetur.

Í dag má enn sjá glitta í þetta miðaldahverfi og sérstaka ásýnd þess með sínum yfirbyggðu svölum, litlu gluggum og vel földu hurðum sem snúa út á götu en eru í raun öryggisútgangar. Ebracio-hverfið laðar til sín námsmenn af háskólasvæðinu á daginn en á kvöldin er það litríkt næturlífið og barmenningin sem lokkar fólk hingað.

Bologna Student Bike Square
Bologna Car Valley Gray Sports Car

Bíladalurinn við Bologna

Bíladellufólk nota tækifærið ef það er í grennd við Bologna og kíkir í bíladalinn rétt utan við borgina til að drekka í sig þennan einstaka menningarheim hönnunar og tækni. Stórar ítalskar bílategundir á borð við Ferrari, Lamborghini, Ducati, Pagani og Maserati er allar að finna á þessum slóðum.

Enzo Ferrari, bílakóngurinn sem stofnaði goðsagnakennt Ferrari-vörumerkið, bjó í Modena, rétt fyrir utan Bologna og það sama má segja um ekki minni goðsögn, Luciano Pavarotti.

Ef þú átt nokkrar evrur uppsafnaðar er tilvalið að splæsa í prufukeyrslu á brautinni eða bóka sérstakan Ferrari-akstur að heimili frægasta tenórs allra tíma, Pavarotti.

Hægðu á ferðinni

Þegar þú hefur skoðað þessi helstu kennileiti Bologna og smakkað á frægustu veigunum er tilvalið að hægja á ferðinni og leyfa rómantísku hlið borgarinnar að heilla þig upp úr skónum. Á daginn er tilvalið að dóla sér í Parco Giardini Margherita görðunum. Þetta eru ævintýralegir garðar með fallegum grænum svæðum og auðvelt að finna sér kyrrð og ró til að njóta í friði. Barinn við gróðurhúsin er síðan ómissandi viðkomustaður en fyrir utan góðan mat og æðislegt vín er oft hægt að sjá lifandi músík, fyrirlestra og ýmsa viðburði hér.

Þá er algengt að tónlistarmenn og listafólk borgarinnar bjóði upp á viðburði á kvöldin á Piazza Maggiore. Næturlíf borgarinnar er bæði lifandi og menningarlegt og hvort sem fólk vill komast í hressandi partí eða ljúfa kvöldstund er enginn vandi að finna hvort tveggja í Bologna.

Síðast en alls ekki síst, er skyldumæting í bogagöng borgarinnar en þessi endalausu göng eða „porticos“ eins og þau nefnast á frummálinu eru á heimsminjaskrá UNESCO. Undir göngunum myndast svo oft æðisleg stemning með kaffihúsum, sölubásum og verslunum og ef það er sérstaklega sólríkt og heitt í veðri er tilvalið að skjóta sér í göngutúr í göngunum.

Bologna er dásamleg ítölsk menningarborg, full af sögu, byggingalist og ævintýralegum mat og drykk.

Spennandi?

Skoða flug til Bologna

Finna flug
NÆST Á DAGSKRÁ

Frábær skíðasvæði í nágrenni Verona


Afþreying í Bologna