Skoða efni

Washington, DC

Minnisvarðar og stórfenglegar sjálfsmyndir

Verið velkomin til Washington, D.C., höfuðborgar Bandaríkjanna. Þessi magnaða borg státar af einhverjum frægustu minnisvörðum seinni tíma, s.s. Washington-minnismerkið, Lincoln -minnisvarðinn, óteljandi minnisvarðar um stríð Bandaríkjanna og fleiri kunnuglegir tökustaðir úr sjónvarpi og kvikmyndum en hægt er að hafa tölu á. Hvergi er gömul og ný saga Bandaríkjamanna jafnlifandi og í Washington, D.C. og héðan fer enginn ósnortinn.

Þegar Instagram-reikningurinn er farinn að fyllast af stórfenglegum sjálfsmyndum fyrir framan helstu áfangastaði Washington; við fætur Abraham Lincoln, fyrir framan Reflecting Pool-tjörnina á milli Lincoln-minnisvarðans og risastóru súlunnar í Washington-minnismerkinu, fyrir framan Hvíta húsið og við þrepin á þinghúsi Bandaríkjanna, má njóta dagsins (eða jafnvel vikunnar) í ævintýralega stóru Smithsonian-safninu. Það er síðan vel þess virði að skoða alla þessa stóru minnisvarða aftur að kvöldi til þegar þeir eru upplýstir í allri sinni dýrð.

Sjarmerandi garðar og sögufræg hverfi

Frá Hvíta húsinu er gaman að halda vestur yfir í sögufræga hverfið Foggy Bottom. Þetta er eitt elsta hverfi Washington, D.C., en það var byggt upp á 18. og 19. öld. Göngutúr í Foggy Bottom er frábær skemmtun en það er bónus að hafa augun opin fyrir frægum og alræmdum stöðum eins og Watergate-byggingunni, Kennedy Center og fjölmörgum stórbrotnum sendiráðum.