Skoða efni

Glasgow

Ódýrt flug til Glasgow

Vinaleg stemning í fallegri stórborg

Glasgow er stærsta borg Skotlands en þar búa fleiri en 630.000 manns í blómlegu skosku menningarlífi. Merkileg saga, magnaður arkitektúr og vinaleg stemning gera Glasgow að eftirsóttum áfangastað allra ferðalanga.

Helsta aðdráttarafl Glasgow er líklega dásamlegt andrúmsloftið. Borgin toppar reglulega lista yfir vinalegustu borgir í heimi enda er fátt betra en spjall við skemmtilega skoska heimamenn þótt hreimurinn sé á köflum í erfiðari kantinum.

Enn áþreifanlegri persónutöfrar Glasgow koma í formi byggingarlistarinnar sem spannar allt frá miðöldum til framúrstefnu samtímans. Í borginni eru margar töfrandi og sögufrægar byggingar, eins og Háskólann í Glasgow og Glasgow City Chambers, en báðar eru þær meðal helstu kennileita borgarinnar. Glasgow státar einnig af ýmsum heimsþekktum nútímabyggingum, eins og Glasgow Science Centre og Riverside Museum sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Matgæðingar geta svo glaðst yfir úrvalinu sem er jafn fjölbreytt og það er ljúffengt. Þegar búið er að bragða á frægustu skosku réttunum eins og „haggis með neeps og tatties“ er nóg af fjölbreyttu og alþjóðlegu úrvali í boði, allt frá framúrskarandi götumat til glæsilegra Michelin-stjörnu veitingastaða.

Söfn, tónleikar og fyrsta flokks verslanir

Glasgow er einnig þekkt fyrir litríkt og lifandi menningarlíf, en í borginni er að finna fjölmörg söfn og tónleikastaði á heimsmælikvarða. Listasafnið Kelvingrove Art Gallery and Museum er vinsæll áfangastaður allra listaunnenda en safneignin þykir stórmerkileg, hvort sem litið er til listasögunnar sjálfrar eða menningararfleifðar Skotlands. Tónlistar- og tónleikamenning Glasgow er síðan fyrsta flokks og borgin státar af frægum stöðum á borð við King Tut's Wah Wah Hut og Barrowland Ballroom sem laða reglulega til sín alþjóðlega tónlistarmenn enda er aldrei skortur á tónleikum í þéttu viðburðadagatali Glasgow.

Og svo er það verslunarleiðangurinn. Glasgow er sannkölluð verslunarparadís enda er úrval stórverslana, lítilla tískubúða og hönnunarverslana frábært í borginni. Helsta verslunarhverfi Glasgow er svæðið í kringum Buchanan Street en þar er ekki bara að finna nánast flest sem hugurinn girnist heldur líka allt hitt sem hugurinn vissi ekki að hann girntist í litríku og skemmtilegu borgarumhverfi.

Þeir sem ferðast til Glasgow ættu að vera meðvitaðir um frábæra staðsetningu borgarinnar þegar kemur að landsbyggðinni. Frá Glasgow er kjörið að fara í stuttar dagsferðir til staða eins og Glencoe og Loch Lomond og Trossachs þjóðgarðinn til að kynnast töfrandi landslagi Skotlands. Hvort sem ferðahópurinn samanstendur af útivistarfólki, menningarspírum, verslunaróðum eða matgæðingum, þá er Glasgow heillandi borg og tilvalinn áfangastaður fyrir næsta frí.