Skoða efni

Düsseldorf

Ódýrt flug til Düsseldorf

Listir og menning í Düsseldorf

Borgin Düsseldorf í vesturhluta Þýskalands er spennandi áfangastaður fyrir alla ferðalanga.

Eitt stærsta aðdráttarafl Düsseldorf er án efa ríkuleg listasenan og fjölbreytt menningarlífið. Listasafnið Kunstsammlung Nordrhein-Westfalen er heimsþekkt safn nútíma- og samtímalista en þar má finna verk eftir kappa á borð við Picasso, Warhol, og Koons en safneignin hófst með kaupum á verkum eftir Paul Klee. Safnið Museum Kunstpalast sýnir síðan verk frá miðöldum til samtímans en leggur sérstaka áherslu á þýska og evrópska list.

Auk fjölmargra listasafna státar Düsseldorf af gríðarlegu úrvali byggingarlistar og menningarviðburða. Ber þar helst að nefna óperuhús borgarinnar, Deutsche Oper am Rhein, sem er þekkt fyrir klassíska tónlistarviðburði af bestu gerð. Í Düsseldorf er einnig að finna fjölda leikhúsa og menningarhúsa sem bjóða í sameiningu upp á frábæra flóru af listviðburðum, leikritum, gjörningum, tónleikum og dansi. Það eru engar ýkjur að það er gnægð af afþreyingu allan ársins hring í Düsseldorf.

Tískuhús og frábærar verslanir

Düsseldorf er líka þekkt fyrir gríðarlegan tísku- og fjölmiðlaiðnað en fjöldi stórfyrirtækja, sjónvarpsstöðva og birtingahúsa er með höfuðstöðvar í borginni. Það má virkilega versla fyrir alla peningana í Düsseldorf en Königsallee ætti að vera fyrsti viðkomustaður alls verslunaráhugafólks þó ekki sé nema bara fyrir innblástur enda svæðið heimsfrægt fyrir lúxusverslanir og fínerí af dýrustu gerð.

Auk lista, menningar og miðla er Düsseldorf rík af sögu og fjölbreyttu borgarumhverfi. Gamli bærinn eða Altstadt er sjarmerandi og fallegt svæði fullt af þröngum götum, sögufrægum byggingum, spennandi krám og frábærum veitingastöðum. En Düsseldorf leynir á sér því innan um gullfallegar götusenurnar er að finna fullt af fallegum almenningsgörðum og grænum svæðum, þ.m.t. gríðarstóran Hofgarten, almenningsgarð í miðju borgarinnar.

Düsseldorf er borg sem hefur eitthvað fyrir alla. Frá fyrsta flokks söfnum og heimsfrægum menningarviðburðum til spennandi verslana og matarmenningar er aldrei skortur á afþreyingu og skemmtun í þessari klassísku heimsborg. Njóttu þess besta sem Evrópa hefur upp á að bjóða og leyfðu Düsseldorf að heilla þig upp úr flottustu skónum.