Skoða efni

Bologna

Ódýrt flug til Bologna

Fegurð, fágun og söguleg byggingarlist

Hún er stundum kölluð „feita, rauða og lærða borgin“ en mögulega þarf að útskýra þetta uppnefni Bologna betur. Hún líkist ekki sólbrenndum prófessor í stærri kantinum heldur er Bologna sannkölluð Mekka þeirra sem kunna að meta feitt kjöt, rauða breiðu af fallegum flísalögðum þökum og sögulega stúdentamenningu. Í þessa knöppu lýsingu vantar þó eitt helsta lýsingarorðið sem mætti nota yfir Bologna: Hún er gullfalleg.

Bjútíbomban Bologna býður gestum sínum upp á einn stærsta sögulega borgarhluta Evrópu og þessi fjölmörgu stræti af fallega uppgerðum gömlu húsum, kirkjum og yfirbyggðum göngugötum láta engan ósnortinn. Hér er líka að finna elsta háskóla vesturlanda og sögulega aðalbyggingu hans, Archiginnasio, við hlið gullfallega torgsins Piazza Maggiore. Gömul háskólabygging hljómar kannski ekki eins og spennandi áfangastaður en við mælum óhikað með heimsókn hingað til að bera dýrðina augum og þá ekki síst sögufrægan krufningasalinn. Þessi blanda af fegurð og fágun á svo vísindalega merkilegum stað er nánast andleg upplifun og þetta er bara háskólinn. Fjölmargar kirkjur, basilíkur og dómkirkjur borgarinnar sem eru sumar hverjar jafngamlar landnámi Íslands eru listaverk í sjálfu sér og bjóða upp á reglulegar hugvekjur í óviðjafnanlegu umhverfi.

Borðaðu vel og drekktu betur í Bologna

Bologna er í raun ein auðugasta borg Ítalíu og fyrir vikið þykja lífsgæði hér mjög góð. Þessi fallegu ítölsku stræti eru frægust fyrir fágaðar bogadregnar yfirbyggingarnar og fjölmarga sérstaka turna. Yfirbyggingarnar eru á heimsminjaskrá UNESCO en þessi sögufrægu súlnagöng skýla gangandi vegfarendum fyrir veðri og vindum og telja í allt yfir 45 km. Undir bogagöngunum verður síðan til sjarmerandi stemning verslana, kaffihúsa og markaða þar sem finna má allt milli himins og jarðar. Turnarnir eru leifar af gömlum borgarvirkjum en þeir 20 sem eftir standa af um 180 eru vinsælir áfangastaðir, bæði vegna sögu sinnar og óviðjafnanlega útsýnisins úr toppi þeirra. Frægustu turnarnir og kennileiti Bologna eru Due Torri. Þessir háu turnar og þröngur stigagangur þeirra eru tilvalin leið til að brenna kaloríunum úr gómsætum pylsunum sem ferðalangar fengu sér án efa í morgun-, hádegis- og kvöldmat.

Og þótt Bologna sé vissulega rómaður áfangastaður fyrir fegurð, menningu og sögu er þetta á endanum ítölsk borg og ekki hægt að heimsækja Bologna án þess að gæða sér á gómsætum þurrkuðum pylsum, fersku pasta og besta rauðvíni sem fjárráðin leyfa. Frægasta matarafurð borgarinnar er án efa Bolognese-sósan sem á Ítalíu kallast „ragú“ og er aldrei nokkurn tíma borin fram með spagettí. Vertu töff og pantaðu tagliatelle með ragú. Þú sérð ekki eftir því.

Borðaðu vel, drekktu betur og njóttu lífsins lystisemda í Bologna.

Vinsæl afþreying í Bologna

Njóttu þess að kanna litrík torgin og sjarmerandi strætin í fylgd vingjarnlegra heimamanna á milli þess sem hægt er að hoppa inn í verslanir og grípa sér eitthvað góðgæti.

Þessi matarleiðsögn um Bologna stoppar á sex stöðum til að bragða á sögufrægum réttum borgarinnar svo sem tortellini, ragú, mortadella, parmigiano reggiano, aceto balsamico DOP, dýrindis vín og margt fleira.

Uppgötvaðu Bologna í fylgd leiðsögumanns sem leiðir þig í sannleikann um marga merkilegustu leyndardóma Bologna, borgar sem er ómögulegt að falla ekki fyrir.