Skoða efni

Billund

Ódýrt flug til Billund

Töfrandi stemningsborgin Billund

Borgin Billund í Danmörku er líklega efst á óskalista barna á öllum aldri. Þetta er jú heimili LEGO, frægasta leikfangaframleiðanda heims, sem á vel við andrúmsloftið í Billund sem iðar af sköpunargáfu og ímyndunarafli.

Helsta aðdráttarafl Billund er klárlega Lególandið, skemmtigarður með fleiri en 50 tækjum, sýningum og skemmtiatriðum og svo er það LEGO Húsið, safn og upplifun tileinkuð þessu goðsagnakennda vörumerki. En þegar búið er að dást að sýningunum og kubba alla kubbana er nóg annað að sjá og skoða í Billund því borgin er meira en þetta heimsins frægasta leikfang.

Í Billund er líka að finna markverða staði menningar og sögu. Þeir sem hafa áhuga á dönsku þjóðarsálinni ættu ekki að láta safnið Mark í Billund fram hjá sér fara en þar er saga borgarinnar rakin frá því hún var lítið þorp til samtímans.

Náttúrufegurð og dýralíf

Fyrir utan menningartengda viðburði og afþreyingu er Billund frábær áfangastaður fyrir útivistarfólk og náttúrudýrkendur. Gullfalleg dönsk sveit umkringir borgina og hér er urmull af gönguleiðum og hjólastígum sem þræða skóglendi og akra. Vötn og lækir setja svo fallegan svip á umhverfið og hér er tilvalið að nýta tækifærið og synda, veiða eða fara jafnvel í siglingu.

Dýragarðurinn Givskud er rétt hjá Billund en þar er að finna fjölda framandi dýra og nærri þriðjungur þeirra teljast í útrýmingarhættu. Gestir fá hér tækifæri til að kynnast mögnuðum dýrum frá fjarlægum heimshornum.

Billund er frábær áfangastaður fyrir alla stórfjölskylduna og meira að segja fúlustu unglingar og þreyttustu ömmur geta ekki annað en leyft sér að njóta lífsins dálítið í Billund. Lególand og náttúrufegurð, sjarmerandi miðborgin og afslappað andrúmsloftið gera Billund að eftirminnilegum áfangastað og ekki skemmir fyrir að borgin er þægilega staðsett í miðri Danmörku. Hvort sem þú ert að leita að hárréttum áfangastað fyrir næsta fjölskyldufrí eða æðislegri helgarferð fyrir vinahópinn er Billund frábær staður að vera á.