Skoða efni

Árósar

Listir, arkitektúr og hellingur af sögu

Árósar á austurströnd Jótlands er önnur stærsta borg Danmerkur og jafnframt helsta höfn landsins. Árósar er lifandi menningarborg með ríka sögu sem á rætur að rekja til víkingaaldar. Þetta er vinsæll ferðamannastaður enda státa Árósar af gullfallegum ströndum, sjarmerandi miðbæ og fjölda listasafna og gallería.

Eitt helsta aðdráttarafl Árósa er gamli bærinn en hann einkennist af þröngum, steini lögðum strætum, litríkum húsum og krúttlegum litlum verslunum og kaffihúsum. Hér er líka að finna dómkirkju Árósa, fallega kirkju í gotneskum stíl frá 13. öld og ráðhús borgarinnar sem er heimsfræg bygging í módernískum stíl eftir engan annan en stjörnuarkitektinn Arne Jacobsen.

Í Árósum er að finna ótrúlegan fjölda safna og gallería og ber þar helst að nefna listasafnið ARoS Aarhus Kunstmuseum, en þar er að finna listaverk eftir danska og alþjóðlega listamenn frá 18. öld til samtímans. Safnið er þó líklega frægast fyrir Regnbogann sem trónir á toppi þess en það er regnbogaklæddur útsýnispallur og listaverk eftir engan annan en Ólaf Elíasson.

Og talandi um íslenskan menningararf þá deila Íslendingar litríkri víkingasögu sinni með Árósum. Mosegaard-safnið er að finna rétt fyrir utan borgina en þar má sjá skemmtilegar og fræðandi sýningar um víkingaöldina, bronsöldina og járnöldina. Den Gamle By er annað ómissandi safn þar sem sögu borgarinnar eru gerð rækileg skil á eftirminnilegan hátt.

Dönsk náttúra og ómæld fegurð

Árósar eru frábær áfangastaður fyrir útivistarfólk og alla sem kunna að meta náttúrufegurð því hér er fullt af frábærum ströndum og fallegu skóglendi. Á sumrin er tilvalið að nýta sér einhverja af mörgum ströndum Árósa til að synda, liggja í sólbaði eða hamast í hvers kyns vatnasporti. Marselisborg-skógurinn sem liggur rétt utan við borgina er svo fullkominn staður fyrir þá sem vilja hjóla, hlaupa eða ganga því þar er að finna risastórt kerfi af stígum fyrir alls kyns afþreyingu.

Árósar eru lifandi og skemmtileg menningarborg með litríka sögu og frábært úrval af alls kyns afþreyingu. Sjarmerandi gamli bærinn, fjölbreytt söfnin, listagalleríin, náttúrufegurðin og afslappað andrúmsloftið gerir Árósa að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir alla ferðalanga. Leitaðu ekki langt yfir skammt að nýrri upplifun og njóttu lífsins í Árósum.