Skoða efni
11. Apr 2023

80,6% sætanýting, 86.661 farþegar, metsala og öflugur tekjuvöxtur

PLAY TF-PPF Aircraft Rear

PLAY flutti 86.661 farþega í marsmánuði og sætanýting félagsins nam 80,6%. Í mars í fyrra var sætanýting 67% og félagið flaug með 23.700 farþega. Farþegafjöldinn hefur því þrefaldast á milli ára sem er skýrt merki um góðan vöxt í rekstri félagsins.

Af þeim sem flugu með PLAY í marsmánuði voru 26% að ferðast frá Íslandi, 39% til Íslands og 35% voru tengifarþegar (VIA farþegar). Miðað við sama mánuð í fyrra hefur orðið gríðarleg aukning í fjölda farþega á leið til Íslands. PLAY leggur mikla áherslu á að auka markaðshlutdeild sína þegar kemur að ferðamönnum á leið til Íslands. Þetta er mikilvægur þáttur og aukningin undirstrikar sífellt sterkari stöðu félagsins á alþjóðamörkuðum.

Mars var enn annar metsölumánuður hvað miðasölu varðar. Auk þess sér félagið fram á jákvæða þróun í átt að hærra meðalverði og meiri hliðartekjum. Þessi tekjuaukning er til marks um að félagið sé að auka framboð sitt í takt við eftirspurn.

PLAY státar af 87,4% stundvísi í mars. Það verður að teljast mjög góður árangur í íslenskum vetrarmánuði.

Á fyrsta ársfjórðungi 2023 flaug PLAY með 212.408 farþega og sætanýting félagsins var 78,4%. Stundvísi var 85,5% sem er talsvert betri árangur en hjá flugfélögunum sem PLAY er í samkeppni við.

Heilbrigð lausafjárstaða og sterk bókunarstaða

Bókunarstaða PLAY fram í tímann er sterk og er staðan fyrir allt árið til muna betri miðað við sama tíma á síðasta ári.

Góð sala og skýr sýn félagsins um að halda rekstrarkostnaði lágum hefur leitt af sér sterka lausafjárstöðu félagsins nú í lok mars 2023 eða mjög svipaða og við lok árs 2022.  

Árstíðarsveifla flugiðnaðarins gerir það að verkum að fyrsti og fjórði ársfjórðungur eru mest krefjandi fjárhagslega og er þetta því klárt merki um að það séu mjög jákvæð teikn á lofti fyrir tvo mikilvægustu ársfjórðungana sem fram undan eru.

PLAY mun fljúga til 37 áfangastaða á árinu, þar á meðal eru 13 nýir staðir í sumar. Sérstaklega mikil eftirspurn er eftir ferðum til nýrra áfangastaða á borð við Porto, Lissabon, Aþenu og Bologna.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Við erum að fljúga inn í skemmtilegasta tíma ársins þar sem við tökum á móti um tvö hundruð nýjum samstarfsmönnum í liðið, fjórum splunkunýjum flugvélum og kynnum þrettán nýja áfangastaði til leiks. Markaðirnir hafa tekið okkur opnum örmum sem sést best á því að við sáum meðaltekjurnar hækka þrátt fyrir að við höfum næstum því tvöfaldað framboð okkar. Þá er nú hver metsölumánuðurinn á fætur öðrum og niðurstaðan því að lausafjárstaðan er heilbrigð á sama tíma og við fljúgum út úr sögulega krefjandi fyrsta ársfjórðungi. Sætanýting er sífellt betri, farþegafjöldi eykst til muna og bókunarstaðan fyrir sumarið er mjög sterk. Að fá þennan sterka meðbyr er frábær tilfinning og ég trúi því einlæglega að árið 2023 verði frábært. Ég hlakka mikið til sumarsins í háloftunum með hæfileikaríka starfsfólki PLAY.“

Operational Statistics - March 2023Hlekkur opnast í nýjum flipa