Skoða efni

Split

Ódýrt flug til Split

Split er dásamleg strandborg og vinsæll ferðamannastaður í Króatíu. Split er önnur stærsta borg Króatíu en í henni búa rúmlega 160.000 manns. Borgin er rík af sögu og á rætur sínar að rekja aftur til 2. aldar f. Kr. og þessi mikla saga er merkjanleg þegar gengið er um gamla bæinn. Megnið af elsta hluta borgarinnar tilheyrir svokallaðri Höll Díókletíanusar sem er í raun gamalt borgarvirki frekar en höll. Göngutúr um Split einkennist af fallegum steinlögðum strætum, fornum rómverskum rústum og mögnuðu sjávarútsýni. Þessi póstkortastemning er þó ekki að drukkna í ferðamönnum eins og oft vill verða með svo sjarmerandi staði. Split er í raun frábær blanda af ferðamannastað með öllum þeim gæðum sem þeim fylgja (veitingastaðir, viðburðir og þjónusta) og afslappaðri gamalli borg við Miðjarðarhafið þar sem allt er í göngufjarlægð. Að okkar mati er Split eiginlega bara fullkomin.

Sól, sjór og strendur Split

Split liggur við austurströnd Adríahafs, nyrsta hluta Miðjarðarhafsins og hér er sjórinn kristaltær og strendurnar sjarmerandi. Þótt aðeins ein af fjölmörgum ströndum Split sé úr dúnmjúkum sandi, hin rómaða Bacvice-strönd, eru mjúkar malarstrendurnar við krúttlegar víkur eftir allri strandlengjunni ekkert síðri fyrir sólelska strandfara. Hér má verja heilu dögunum í guðdómlegri afslöppun eða finna sér spennandi mannlíf og sjávarsport, allt eftir þörfum og smekk hvers og eins. Þá eru ótaldar allar þær fjölmörgu eyjar undan ströndum Króatíu sem eru margar hverjar mjög nálæg Split og bjóða upp á fjölbreytt og litríkt mannlíf og strandlíf. 

Litríkt næturlíf Split

Þegar sólin sest í Split býður þessi fallega og afslappaða sögulega borg í spennandi partí með fjölbreyttu næturlífi. Hér má finna allt frá hressandi klúbbum við sjávarsíðuna til falinna skemmtistaða og fágaðra vínbara innan um sögufrægar gamlar byggingar. Hvort sem hugmyndin er að verja rómantísku kvöldi með framandi kokkteil og fínni veitingar eða skemmta sér fram á rauða nótt við dynjandi teknódans, má finna rétta staðinn og rétta fólkið í Split. 

Útivistarparadísin Split

Fyrir utan sjarmerandi borgarlandslagið, fallegt útsýnið og frábært næturlífið ætti enginn að láta söfn Split fram hjá sér fara. Ber þar helst að nefna Borgarsögusafn Split (e. Split City Museum) og Fornminjasafnið þegar búið er að heimsækja Höll Díókletíanusar sem er ekki að ástæðulausu á heimsminjaskrá UNESCO. Við mælum með því að spara innanhússævintýrin ef það skildi rigna, sem gerist reyndar að meðaltali fimm sinnum í mánuði yfir sumarið, og nýta þess í stað góðviðrisdaga í útivist því hún er fyrsta flokks á þessum slóðum. Þegar búið er að prófa öll sjávarsportin eins og seglbrettin, kajakana, snorklið og köfunina ættu útivistaráhugamenn og fylgdarlið þeirra að kynna sér frábært framboðið á þurru landi. Þar trónir á toppnum hjólreiðar en aðstæður til þeirra gerast vart betri en á þessum slóðum og svo auðvitað göngur en við mælum sérstaklega með göngu í gullfallegum Marjan-skógi í borginni. Þeir sem hafa tíma til að skoða dagsferðir út fyrir borgarmörkin ættu að athuga með gríðarlegt úrval bátsferða til nærliggjandi eyja, hellaskoðun eða ferð í þjóðgarðinn Krka til að skoða magnaða fossana og landslagið í kring. 

Áður en heim er haldið ættu allir og ömmur þeirra að bragða á því besta af króatískri matargerð því hún er sannarlega ekkert slor. Þetta er jú áfangastaður við Miðjarðarhafið og matargerðin bæði meinholl og gómsæt í samræmi við það. 

Fyrir þá sem langar að heimsækja einstakan áfangastað, upplifa eitthvað nýtt og virkilega fallegt sem er samt svo huggulegt og þægilegt, mælum við eindregið með strandborginni Split í Króatíu.