Skoða efni

Prag

Ódýrt flug til Prag

Sjarmör af gamla skólanum

Allar þessar senur af James Bond að laumast inn í glæsilegar hallir í smóking með gullfallega borgarmynd í bakgrunni þar sem glittir í steinlögð stræti og fallega upplýstar brýr voru líklega teknar upp í Prag. Þessi borg er sjarmör af gamla skólanum, full af sögu, menningu og glæsilegum fyrstu kynnum.

Fáar borgir hafa jafndjúpstæð áhrif á gesti sína eins og Prag, fegurðardrottning Evrópu og höfuðborg Tékklands. Þetta evrópska borgardjásn trónir yfirleitt á toppnum þegar fjallað er um glæsilegar borgarmyndir og saga borgarinnar gefur útlitinu ekkert eftir.

Um þrjár milljónir búa í þessari höfuðborg Tékklands en það er frekar nýlegur titill í sögu borgarinnar. Prag var áður höfuðborg og menningarmiðja konungsríkisins Bæheims, mikilvæg borg í Austurrísk-ungverska keisaradæminu, Habsborgarríkinu og Heilaga rómverska ríkinu. Sögunördar geta eytt mörgum árum í Prag og stöðugt rekist á ný undur og stórmerki á hverju götuhorni.

Göfuga klisjan um Moldá

Þeir sem vilja Prag beint í æð úr öllum skilningarvitum ættu að standa á miðri Karlsbrúnni, gullfallegri 13. aldar steinbrú, horfa niður í Moldá sem rennur fyrir neðan og hækka í Föðurland mitt (Ma Vlast) eftir Smetana en 2. kafli þessa stórvirkis heitir einmitt „Moldá“. Þegar litið er upp er ekki annað hægt en að verða ástfanginn af þessari einstöku borg. Þótt þetta sé algjör klisja er hún bæði göfug og verðug. Gerðu bara eins og við segjum og njóttu vel.

En óviðjafnanleg nærvera Prag snýst ekki bara um fallega og fágaða fortíð hennar. Borgin býr líka yfir litríkri og líflegri nútímamenningu sem lifir góðu lífi í sögufrægu umhverfinu. Hér er urmull af sjarmerandi búðum, töff kaffihúsum og dásamlegum veitingastöðum. Framboð af söfnum, listviðburðum og tónlist virðist líka endalaust því Prag er í dag alþjóðleg stórborg þar sem nýsköpun og lifandi menning blómstra í gullfallegu umhverfinu.

Prag er borg fyrir fagurkerann, sögunördið, listaspíruna og heimsborgann.