Skoða efni

Malaga

Ódýrt flug til Malaga

Magnað útsýni í Malaga

Malaga á suðurströnd Spánar er ekki bara sólríkasta borg Spánar heldur einnig ein af elstu borgum Evrópu. Um 1.000 árum áður en landnám hófst á Íslandi varð Malaga að borg. Borgin var stofnuð um 700 fyrir Krist en það ætti ekki að koma neinum á óvart að fólk hafi snemma áttað sig á því að Malaga væri góður staður að vera á því hér er veðráttan dýrleg, útsýnið magnað og kjöraðstæður til að lifa í vellystingum, sama hvert ártalið er.

Malaga er líka gullfalleg borg. Hér er að finna gamla borgarvirkið Alcazaba, glæsilegt útsýni frá Gibralfaro-hæð, 16. aldar dómkirkju, gamlan og sjarmerandi miðbæ með fallegum verslunum og æðislegum veitingastöðum að ónefndum gylltum ströndum Costa del Sol sem bjóða gestum dásamlega aðkomu að Miðjarðarhafinu. Íbúafjöldi er um 600.000 en frægasti íbúi Malaga fyrr og síðar hlýtur að vera listmálarinn og myndhöggvarinn Pablo Picasso. Picasso-safnið í Malaga er ómissandi viðkomustaður fyrir alla gesti og gangandi enda sneisafullt af verkum meistarans. Ef ekki væri fyrir einn merkasta listamann mannkynssögunnar ætti hjartaknúsarinn Antonio Banderas líklega heiðurinn að því að vera frægasti sonur borgarinnar.

Saga, sól og meira fyrir matgæðinga

Matgæðingar og lífskúnstnerar ættu að njóta hverrar mínútu í Malaga. Dýrlegt tapas drýpur hér af hverju strái og veitingastaðir keppast við að gera betur en samkeppnisaðilinn í þessum spænsku smáréttum. Djúpsteikta bakkelsið churros er hvergi betra í heiminum en hér og enginn skyldi láta núggatið fram hjá sér fara í Malaga. Þessu skal svo öllu skolað niður með fyrsta flokks spænsku víni eða svalandi kokkteil undir sólhlíf.

Ef djúpslökun á ströndinni og ofgnótt af mat er farið að segja til sín er tilvalið að skoða Caminito del Rey sem er aðeins klukkutíma frá Malaga. „Litla gönguleið konungsins“ er ævintýraleg gönguleið sem hangir innan í gullfallegu gljúfri í um 100 metra hæð. Göngubrúin var blessunarlega endurgerð árið 2015 þótt hún líti enn út fyrir að vera hið mesta glæfraspil en þessi vinsæli ferðamannastaður er bæði mögnuð upplifun og einstök útivist.

Fljúgðu til Malaga og upplifðu mörg þúsund ár af sögu, fallegan arkitektúr, heimsfræga list, unaðslegan mat, dásamlegar strendur og síðast en ekki síst, meiri sól en þig óraði fyrir.

Vinsæl afþreying í Malaga

Fáðu fræðandi og skemmtilega leiðsögn um sögufrægu borgina Cordoba í göngu á milli helstu áfangastaða, s.s. dómkirkju og mosku Cordoba sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimsókn á þrjá tapas-staði í Malaga í þriggja tíma matarleiðsögn þar sem bragðað er á allt að 15 tapas-smáréttum ásamt því að bragða á frábæru víni og bjór.

Sjáðu villta og frjálsa höfrunga Gíbraltar skvetta úr sporðunum! Höfrungasafarísigling að Gíbraltarsundi er stórkostleg afþreying fyrir alla sem dvelja á Costa del Sol.