Skoða efni
A view over the historical buildings of the canals in Amsterdam

Amsterdam

Ódýrt flug til Amsterdam

Hámenning og hjólreiðar

Steinlögð stræti, dramatísk saga, einstakur arkitektúr, mögnuð myndlist og kynlegur karakter fyrir alla peningana. Við erum að sjálfsögðu að tala um áfangastaðinn Amsterdam. Evrópskar stórborgir eru hver annarri ævintýralegri en Amsterdam er alveg sér á (hús)báti. Kannski eru það gömlu og mjóu vöruhúsin sem setja einstakan svip á þröngu strætin. Kannski eru það litríkir húsbátarnir sem hanga við síkin skreytt reiðhjólum í öllum regnbogans litum. Kannski er það frjálslyndið, löglega hassið og skattlagt vændið. Eða kannski eru það listasöfnin sem geyma einhver merkustu málverk mannkynssögunnar.

Hvað svo sem veldur, lætur Amsterdam engan ósnortinn. Þessi borg minnir á köflum á sviðsmynd í barnaleikriti og er best skoðuð á fæti eða uppáhaldsfararmáta Hollendinga: á reiðhjóli. Þeir sem hafa gert þau mistök að keyra inn í miðborg Amsterdam sjá yfirleitt eftir því þegar þeir neyðast til að bakka út úr hverju einstefnustrætinu á fætur öðru. Þessar götur voru ekki hannaðar fyrir bílaumferð nútímans og hafa engan sérstakan metnað til að breyta því. Það jafnast því fátt á við að rölta um stræti Amsterdam, leyfa sér pönnukökur í morgunmat, grandskoða penslaförin á alvöru Van Gogh málverki á daginn og kíkja á kaffihúsin á kvöldin. Hér er enginn að græða og grilla, lífið í Amsterdam snýst um að skapa og njóta.

Ævintýralegir fjársjóðir

En þótt allt virðist mega í Amsterdam er borgin talin öruggur staður með lága glæpatíðni. Listir og menning grasrótarinnar eru í hávegum höfð og þetta samspil gamallar hámenningar á listasöfnunum og jaðarsettra listamanna í bakhúsunum skapar frjálslynda stemningu þar sem ádeilan er skörp, andrúmsloftið ævintýralegt og ekkert er endurtekið.

Spennandi fjársjóðir leynast hér á mörkuðunum, matarmenningin leyfir sér allt milli himins og jarðar og ljósin í Amsterdam eru eins og í jólaleikriti frá miðri síðustu öld. Stígðu inn í ævintýrið Amsterdam og settu þína eigin ógleymanlegu sögu á svið.